Valstika

Kvæði samin 1833 - 1837

Jan 31, 2020

Saknaðarljóð


Þá var eg ungur
er unnir luku
föðuraugum
fyrir mér saman;
man eg þó missi
minn í heimi
fyrstan og sárstan
er mér faðir hvarf.
 
Man eg afl andans
í yfirbragði
og ástina björtu
er úr augum skein.
Var hún mér æ
sem á vorum ali
grös in grænu
guðfögur sól.
 
Man eg og minnar
móður tár
er hún aldrei sá
aftur heim snúa
leiðtoga ljúfan,
ljós á jörðu
sitt og sinna –
það var sorgin þyngst.
 
Mjög hefi’ eg síðan
til moldar ganga
ættmenni best
og ástvini séð.
Þá vill hugur
harma telja
þegar böl búið
er brjósti nýtt.
 
Sá eg inn góða
er guði treysti,
ungan og öflgan,
ættjarðar von,
Lárus á bana-
bólstur hniginn,
líki líkan
er eg land kvaddi.
 
Sá eg með Dönum
í dauðra reit
Baldvin úr bruna
borinn vera –
fríða, fullstyrka
frelsishetju.
Söknuður sár
sveif mér þá að hjarta.
 
Sá eg Torfa –
tryggðreyndan vin,
hraustan, hreinskilinn
og hjartaprúðan –
lífi ljúka
og lagðan vera
ættjörðu fjær
er hann unni mest.
 
Átti ég eftir
enn í heimi
ungan og fagran
ættarblóma;
vel mundi kæta,
vel mundi bæta
laufgrænn kvistur
lágan runna.
 
Það man eg yndi
öðru meira
er við Skafta
skilning þreyttum
eður á vænum
vinafundi
góða, geðspakur,
á gleði jók.
 
Sá eg þig, frændi!
fræði stunda
og að sælum
sanni leita;
þegar röðull
á rósir skein
og bládögg beið
á blómi sofanda.
 
Er þú á hæsta
hugðir speki
og hátt og djúpt
huga sendir.
Oft eru myrk
manna sonum,
þeim er hátt hyggja,
in helgu rök.
 
Brann þér í brjósti,
bjó þér í anda
ást á ættjörðu,
ást á sannleika.
Svo varstu búinn
til bardaga
áþján við
og illa lygi.
 
Nú ertu lagður
lágt í moldu
og hið brennheita
brjóstið kalt.
Vonarstjarna
vandamanna
hvarf í dauðadjúp –
en drottinn ræður.


Samið árið 1836.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 3. ár, 1837.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka