Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Borðsálmur


Forsöngvarinn:
Það er svo margt, ef að er gáð,
sem um er þörf að ræða;
ég held það væri heillaráð
að hætta nú að snæða.
 
Fólkið:
Heyrið þið snáða,
hvað er nú til ráða?
það mun best að bíða
og hlýða.
 
Forsöngvarinn:
Á einum stað býr þrifin þjóð
með þvegið hár og skjanna,
við húsbændurna holl og góð
sem hundrað dæmi sanna.
 
Fólkið:
Hvað er að tarna?
hvað sagðirðu þarna?
Mættum við fá meira
að heyra.
 
Forsöngvarinn:
Mér hefir verið sagt í svip
að sig hún taki’ að yggla
og ætli nú að eignast skip
þótt enginn kunni’ að sigla.
 
Fólkið:
Við litlu má gera,
látum svona vera;
þeir ýtast þá með árum
á bárum.
 
Forsöngvarinn:
Nú eru líka níu menn
sem nóttina eiga’ að stytta,
þó varla nokkur viti enn
hve vænlegt ráð þeir hitta.
 
Fólkið:
Segðu’ ekki lengur!
seinna veit hvað gengur.
Mættum við fá meira
að heyra.
 
Forsöngvarinn:
Á einum stað býr einnig fólk
sem alltaf vantar brýni;
það lifir þar á mysu’ og mjólk,
en mest á brennivíni.
 
Fólkið:
Æ, hvaða skrambi!
ætli’ þeir standi’ á þambi?
Mættum við fá meira
að heyra.
 
Forsöngvarinn:
Þar hefir verið sofið sætt
en sungið nokkru miður,
og ullin fremur illa tætt;
en allra besta fiður.
 
Fólkið:
Ætli’ það sé undur
þótt á þá renni blundur!
Mættum við fá meira
að heyra.
 
Forsöngvarinn:
Þar eru blessuð börnin frönsk
með borðalagða húfu,
og yfirvöldin illa dönsk
á annarri hvörri þúfu.
 
Fólkið:
Hættu nú, herra!
Hér mun koma verra
sem þér er betra’ að þegja’ um
en segja’ um.


Samið árið 1839.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Sérprent fyrir samsæti 26. apríl 1839, sem haldið var til heiðurs séra Þorgeiri Guðmundssyni: „Borðsálmur“.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka