Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Festingin víða, hrein og há


(Joseph Addison)

Festingin víða, hrein og há
og himinbjörtu skýin blá
og logandi hvelfing ljósum skírð!
þið lofið skaparans miklu dýrð;
og þrautgóða sól! er dag frá degi
drottins talar um máttarvegi,
alltaf birtir þú öll um lönd
almættisverk úr styrkri hönd.
 
Kvöldadimman þá kefur storð,
kveða fer máni furðanleg orð
um fæðingaratburð, heldur hljótt,
hlustandi jarðar á þöglri nótt;
og allar stjörnur, er uppi loga
alskipaðan um himinboga,
dýrðleg sannindi herma hátt
um himinskauta veldið blátt.
 
Og þótt um helga þagnarleið
þreyti vor jörð hið dimma skeið,
og öngva rödd og ekkert hljóð
uppheimaljósin sendi þjóð,
skynsemi vorrar eyrum undir
allar hljómar um næturstundir
lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn:
„lifandi drottinn skóp oss einn.“


Þýtt árið 1842.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Stjörnufræði, létt og handa alþýðu eftir Dr. G.F. Ursin, Viðeyjarklaustri 1842. [„Stjörnufrædi, ljett og handa alþídu eptir Dr. G. F. Ursín […]; Jónas Hallgrímsson íslendskaði. Videiar Klaustri“]
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka