Valstika

Kvæði samin 1838 - 1842

Jan 31, 2020

Séra Stefán Pálsson


„Móðir og faðir
mjúk og ástríkur
yfirgáfu þig
á æskuskeiði“,
en guð þín geymdi
og gæðafjöld,
lán og lífsfögnuð
ljúflega veitti.
 
Treystir þú og fólst þig
hans tryggri hönd,
ungur þjónn
hans orða heilagra;
nú ertu leiddur
lífsbraut hreina
alla að morgni
eilífðardags.
 
Hvað er skammlífi?
skortur lífsnautnar,
svartrar svefnhettu
síruglað mók;
oft dó áttræður
og aldrei hafði
tvítugs manns
fyrir tær stigið.
 
Hvað er langlífi?
lífsnautnin frjóvga,
alefling andans
og athöfn þörf;
margoft tvítugur
meir hefir lifað
svefnugum segg
er sjötugur hjarði.
 
Vel sé þér, vinur,
þótt vikirðu skjótt
Frónbúum frá
í fegri heima.
Ljós var leið þín
og lífsfögnuður;
æðra eilífan
þú öðlast nú.
 
Oft kvaðstu áður
óskarómi
heimfýsnar ljóðin
hugumþekku;
vertu nú sjálfur
á sælli stund
farinn í friði
til föðurhúsa.


Samið árið 1841.
Eiginhandarrit er varðveitt á Þjóðminjasafni (Þjms. 12048).
Frumprentun í: Fjölnir 6. ár, 1843.
Einnig prentað í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.

Til baka