Valstika

Að tyggja upp á dönsku

Að tyggja upp á dönsku

Nú er orðinn siður fyrir austan að tyggja með framtönnunum; en það eru ekki allir sem vita af hverju það kemur til.

Mér var sagt á einum bæ þetta héti að tyggja upp á dönsku og þá fór ég að reyna það líka; þá varð ég allt í einu þolinmóður og iðinn að nema, þó ég væri lúinn í kjálkunum og yrði að éta hálftuggið á daginn, þá bættist mér tvöfalt upp á nóttunni. Mig dreymdi þá ég væri kominn á kjól og kynni að tyggja upp á dönsku og hló þá stundum hátt upp úr svefninum þegar ég sá hunda bíta bein eða bændur á peysu sem tuggðu með jöxlunum.

Prestsdóttirin átti bágara en ég; hún var bæði ung og fríð og hafði viðkvæma samvisku, en þrekið vantaði og styrkleika sálarinnar til að leggja hart á sig og læra það sem mest reið á: að tyggja upp á dönsku, eins og faðir hennar; þegar hún hugsaði út í það, flóði hún stundum öll í tárum og sagði guð hefði ekki gefið sér jaxlana til annars en syndga.

Þá kom Hjörleifur sterki á mórauðri úlpu og hafði bundið reipi um sig miðjan. Hann kenndi í brjóst um stúlkuna og huggaði hana eins og hann gat. Hann stakk atgeirnum á kaf ofan í jörðina, setti frá sér 50 fjórðunga kistu sem hann bar á bakinu og stökk upp á bæjarkampinn þar sem við sátum, prestsdóttirin og ég, og tók svo til orða: „Þú átt ekki að gráta, fuglinn minn! þó þér hafi orðið það á að tyggja með jöxlunum; ég skal segja þér, hvernig þessi hinn nýi siður er kominn upp í sveitinni. Hér kom maður útlendur og hafði misst jaxlana í Danmörku; hann varð þá að nota framtennurnar, vesalingur, og tyggja með þeim eins og hann gat. En svo komu prestar og sáu það til hans og tóku það eftir honum og síðan hver af öðrum. Þessum mönnum hefnist nú fyrir og hafa þeir gjört sig að athlægi af því þeir fóru að tyggja upp á dönsku“.

Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 329-330. Reykjavík: Svart á hvítu.