Valstika

Fífill og hungansfluga

Fífill og hunangsfluga

Einu sinni var hunangsfluga og bjó í veggjarholu, og fífill og bjó í hlaðbrekku. Hunangsflugan vissi hvað lífið var; hún hafði einhvern tíma verið ung og fríð og unað við blóm og grænan völl og aldrei dreymt á nóttunni nema um sumar og sólskin; en nú var hún orðin sett og reynd kona, eða réttara sagt ekkja og einstæðingur, og átti mörg börn fyrir að sjá; nú var hún vakin og sofin að draga til búsins og safna vaxi og hunangi.

Fífillinn var nýsprottinn út; hann hafði dreymt morgunroðann og vaknaði þegar sólin kom upp en aldrei séð kvöld og forsælu; hann leit ekki í kringum sig en horfði brosandi í sólina og sólin kyssti hann þúsund sinnum eins og móðir kyssir nývaknað barn; og hann roðnaði af gleði í sólarylnum og hlakkaði til að lifa og verða stór. Þá kom flugan út í holudyrnar og skoðaði til veðurs.

„Ósköp eru á mér,“ sagði flugan, „hvað ætli ég hugsi að vera ekki komin út; völlurinn glóir allur í blómum sem lokist hafa upp í blíðviðrinu; ef ég væri yngri og minna farin að þreytast, þá gæti mér orðið björg að slíkum degi; rækarls mæðin og fótadofin! – en blessuð börnin spyrja ekki að því!“

Nú þandi flugan út vængina og snaraðist fram yfir hlaðið – brumm birr bumm – og svo var hún komin í hlaðbrekkuna, saug blómin í óðakappi og safnaði vaxinu í bolla sem hún hefur innanvert á fótunum, þangað til hún var orðin svo afturþung að henni þótti vanséð hún kæmist heim og hugsaði sér að hvíla sig. Hún hafði öngvar sveiflur á því, nema settist á fífilinn unga; lét fæturna hanga út af röndinni á fífilshöfðinu, baðaði vængjunum og suðaði. Það má nærri geta hvernig aumingja fíflinum hafi orðið við þegar skyggði fyrir sólina og hlassið settist á hann svo blöðin svignuðu fyrir undir þessum ofurþyngslum.

Þegar mæðin rann af flugunni, þefaði hún úr kollinum á fíflinum og sagði svo hátt að hann heyrði: „Hvaða blessaður ilmur! ekki get ég setið á mér að sjúga þig, karlkind! svolitlu er mér óhætt að bæta á mig.“

„Gerðu það ekki, fluga mín góð!“ sagði fífillinn og skalf og titraði af hræðslu, „sjúgðu mig ekki, blessuð mín! ég er svo ungur og langar til að lifa og verða stór.“

„Ekki get ég gert að því,“ sagði flugan, „ég er að draga til búsins og verð að sjá um mig og börnin mín; ég sýg blómin af því ég þarf þess með en kvel þau ekki eða drep að gamni mínu; við segjum, hunangsflugurnar, að þið séuð sköpuð handa okkur og förum þó betur með ykkur en mennirnir fara með dýrin og hverjir með aðra.“

„Ég er svo einfaldur og ungur,“ sagði fífillinn, „og get ekki borið neitt á móti því sem þú segir en mig langar ógn til að lifa; ég hef aldrei séð kvöld né forsælu.“

„Þú talar eins og barn,“ sagði flugan, „og veist ekki hvað það er sem þú hlakkar mest til; en ég er harðbrjósta að bæla þig niður“ – brumm birr bumm – og svo lagði hún á stað með byrði sína, og fífillinn horfði aftur í sólina og hún kyssti hann þúsund sinnum eins og móðir kyssir nývaknað barn.

Skömmu seinna kom flugan aftur fljúgandi og suðandi að sækja meira til búsins; fífillinn kallaði þá til hennar og sagði: „Kærar þakkir, fluga mín góð! fyrir það þú vægðir mér og saugst mig ekki svo ungan; ég skal bera mig að borga þér einhvern tíma og blessuð sólin vermi þig!“

„Ég tek viljann fyrir verkið, vesalingur!“ sagði flugan „en með hverju ætli þú getir borgað mér? þú ert fastur á rótinni og verður að standa þar sem þú ert þangað til bóndinn fer að slá eða börnin slíta af þér höfuðið.“

„Æ, ég veit ekki hvað þú talar um,“ sagði fífillinn, „en mig langar til að lifa.“

„Sæll vertu, fífill minn!“ sagði flugan morguninn eftir, „nú hefurðu séð kvöld og forsælu, hvernig líst þér á?“

„Minnstu ekki á það,“ sagði fífillinn, „mér ógnar þegar ég hugsa til þess! Þegar sólin blessuð hvarf og forsælunni skelldi yfir – þá kom yfir mig hrollur og dauðans þungi; ég lagði þá saman blöðin og lokaði höfðinu og sofnaði; en mig hefur dreymt í alla nótt ljósið og sólarylinn; tefðu mig nú ekki meðan sólin er á lofti; en ég má ekki hugsa til kvöldsins – samt langar mig til að lifa svo ég geti borgað þér.“

Flugan brosti við og flaug lengra ofan á völlinn.

Nú leið lengi og þau heilsuðust á hverjum morgni þegar flugan fór út. Fífillinn eltist fljótt og var loksins orðinn að gráhærðri biðukollu og meir en fullsaddur á lífinu, en samt sem áður sagði hann alltaf sig langaði til að lifa, til að geta borgað flugunni, og stóð nú á því fastara en fætinum að hann skyldi gera það áður en hann skildi við; en flugan gerði ekki nema hló að honum og kallaði hann örverpi og biðukollu og ráðlagði honum að leggjast út af og deyja.

„Hafðu þolinmæði, heillin góð!“ sagði fífillinn, „þakklátsemin heldur mér við; þó ég sé köld og grá biðukolla og sólin gleðji mig ekki meir og forsælan og myrkrið hræði mig ekki af því ég er tilfinningarlaus, þá langar mig samt til að lifa; og nú vaki ég bæði dag og nótt og sofna aldrei dúr og er alltaf að hugsa um þetta sama.“

„Vertu sæl, biðukolla!“ sagði flugan.

„Vertu sæl, fluga mín góð! og sólin blessuð vermi þig!“

Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 310-312. Reykjavík: Svart á hvítu.