(J. P. Hebel)
Það eru nú meir en sjötíu ár síðan ungur járnnemi í Falúnum kyssti unnustu sína, unga og fríða stúlku, og sagði við hana um leið: „Á Lúsíumessu skal presturinn lýsa yfir okkur blessuninni; svo verðum við hjón og komum upp kofa yfir höfuðin á okkur.“
„Og ást og eindrægni skulu búa undir því þaki,“ svaraði stúlkan brosandi, „því þú ert mér fyrir öllu; og heldur vildi ég liggja í gröfinni en eiga að lifa þar sem þú ert ekki.“
En þegar presturinn kallaði í annað sinn af stólnum og sagði: „Viti nokkur meinbugi á þessari giftingu, segi hann til í tíma eða þegi síðan“ – þá kom dauðinn og sagði til; því morguninn eftir þegar ungmennið gekk um hlaðið hjá unnustu sinni, klappaði hann að vísu á gluggann og bauð henni góðan dag en hann kom aldrei síðan og heilsaði henni að kvöldi dags. Hann kom aldrei framar upp úr námunum; og það var til lítils þó hún væri um morguninn að falda svartan klút með rauðum teinum handa unnusta sínum á brúðkaupsdaginn; því þegar hann kom aldrei aftur, lagði hún klútinn afsíðis og grét unnusta sinn og gleymdi honum aldrei.
Svona liðu stundir – Lissabon féll í jarðskjálfta, sjö ára stríðið var háð, Pólínaríki var skipt í parta, Teresía drottning andaðist og Strúense var hálshöggvinn, Vesturálfan náði frelsi sínu og frakkneskur og spánskur her varð að hverfa aftur frá Gíbraltarkastala, Tyrkjar byrgðu Stein hershöfðingja inni í Kappahelli á Ungaralandi og Jósep keisari andaðist, Gústaf Svíakonungur lagði undir sig Finnland, frakkneska stjórnarbyltingin hófst og langvinn stríð og mörg sem þar af leiddi, og Leópold keisari annar lagðist í gröfina, Napóleon herjaði á Prússaveldi og Englendingar skutu sprengikúlum á Kaupmannahöfn; akuryrkjumennirnir sáðu og skáru upp, mylnumaðurinn malaði, smiðurinn smíðaði og málmnemarnir leituðu að auðæfum í skauti jarðarinnar.
En sumarið 1809, um Jónsmessuleytið, þegar járnnemarnir í Falúnum voru að grafa göng undir jörðunni, þrjú hundruð álna dúpt eða meira, fundu þeir fyrir sér unglingslíkam hulinn sandi og viktrilsvatni; hann var óskaddaður, svo hver maður gat séð svip hans og andlitsfall og á hvaða aldri hann var, eins og hann væri dauður fyrir stundarkorni eða hann hefði sofnað út frá vinnu sinni. En þegar komið var með hann upp í birtuna, sáu menn að faðir hans og móðir og vinir og kunningjar voru allir dauðir; enginn gat kannast við ungmennið sem svaf og enginn vissi neitt um slysför hans, þangað til stúlkan kom þar að sem fyrrum var lofuð járnnemanum er eitt sinn gekk til náms og kom þaðan aldrei síðan. Nú kom hún gráhærð og hrum og gekk við hækjur og þekkti þar unnusta sinn. Þá hallaðist hún niður að líkinu og fremur þó af gleði en trega; og þegar hún kom til sjálfrar sinnar svo hún gat farið að tala, sagði hún: „Það er unnusti minn sem ég hef syrgt í fimmtíu ár og guð leyfir mér nú að sjá aftur áður en ég dey; viku á undan brúðkaupi sínu fór hann niður í jörðina og kom aldrei upp aftur þaðan í frá.“
Þá viknuðu þeir sem við voru staddir og táruðust þegar þeir sáu brúðina sem nú var fölnuð og ellihrum, og brúðgumann ungan og fagran, og hvernig ástin var aftur vöknuð eftir full fimmtíu ár; en hann lauk ekki upp munninum til að brosa né augunum til að sjá unnustu sína og allir grétu þegar hún bað málmnemana að bera hann inn í húsið sitt; því hann átti ekkert annað heimili og ekkert tilkall til hælis, þangað til honum yrði grafin gröf í kirkjugarðinum.
Og þegar gröfin var albúin daginn eftir og málmnemarnir sóttu líkið, lauk brúðurin upp fallegum kistli og tók upp svartan silkiklút með rauðum teinum og hnýtti um hálsinn á unnusta sínum sem væri það hennar brúðkaup en ekki greftrun hans; því þegar menn lögðu líkið í gröfina sagði hún: „Sofðu nú sætt einn eða tvo daga í þinni köldu brúðarsæng og láttu þér ekki leiðast; ég á nú lítið eftir að gjöra og kem bráðum, og bráðum fer aftur að birta af degi.“ Og enn fremur sagði hún um leið og hún gekk frá gröfinni og leit aftur á hvíldarstað unnusta síns: „Því sem jörðin hefir eitt sinn skilað, skilar hún líka í annað sinn.“
Þýðing sem ekki er til í eiginhandarriti.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 320-322. Reykjavík: Svart á hvítu.