Á einum stað í Norðurlandi stendur haugur fram til dala og er ýmist kallaður Hreiðarshóll eða Hreiðurhóll. Það hefur farið með nafnið á þessum haugi eins og vant er eða fara með örnefni, að þegar þau fyrnast og það er gleymt sem þau voru við kennd, þá ruglast örnefnin og enginn maður veit hvað þau merkja. Sumir segja Hreiðarshóll sé réttara og sé nafnið dregið af fornmanni sem þar hafi verið heygður; aftur segja sumir að þetta sé rangt og færa það til síns máls að á hverju sumri verpi sólskríkjur og steindeplar í urðinni fyrir ofan hólinn svo hitt sé réttnefni að kalla hann Hreiðurhól.
Höfundur þessara blaða er ekki fær um að skera úr svo mikilvægri þrætu en lætur sér nægja að skora á alla fornfræðinga að þeir noti þetta tækifæri til að reyna skarpleikann og sýna lærdóminn og eyða þessu þrætuefni fyrir þeim í Grímstaða*hrepp svo þeir fái tíma til að keppa um eitthvað sem þeim er nákomnara og sveitinni gæti orðið hagur að. Tilgangur þessara blaða er einungis að segja rétt og einfaldlega frá nokkrum viðburðum sem orðið hafa í manna minnum og eru svo eftirtektarverðir og að nokkru leyti svo hryggilegir að ég vona lesandinn virði mér til vorkunnar þó ég hafi í upphafinu staldrað við nafnið á Hreiðarshól; því þessi „bústaður enna dauðu“, hvað sem þeir hafa heitið er feður vorir lögðu þar til hvíldar, hann er undarlega riðinn við forlög þeirra manna sem mest verða nefndir í sögunni.
* Þessu bæjarnafni er breytt og eins verður gert á hverjum stað í þessari sögu þar sem nefna þarf menn sem annaðhvort eru lifandi eða nýdánir; þetta þótti varlegra til að komast hjá að styggja neinn. Íslendingar eru, enn sem komið er, svo óvanir við að sjá nafn sitt nefnt eða gjörða sinna getið á prenti að þeir fælast bækurnar eins og „gapastokk“ en vara sig ekki á að tungurnar allt í kringum þá eru bæði fjölmæltari og verri viðfangs en bækurnar; því bækurnar geta ekki borið á móti því sem þær hafa sagt, heldur verða að ábyrgjast það.
Það var um sumarið 1817 – þegar hið danska stjórnarráð var búið að lýsa friðhelgi yfir legsteini Kjartans Ólafssonar og öðrum fornmenjum á Íslandi og verið var að hvetja prestana til að grennslast eftir öllu þess konar í sóknum sínum og senda skýrslur um það til nefndarinnar í Kaupmannahöfn sem á að varðveita fornleifar ríkisins – að farið var að minnast á Hreiðarshól og hvort það mundi vera áræðandi að grafa í hann. Hóllinn stendur í Grímstaða landareign og það var alkunnugt í sveitinni að hinn forni eigandi Grímstaða hafði selt undan sér jörðina 1783 og dáið rétt á eftir og um sama leytið þóttust menn hafa séð vegsummerki að reynt hefði verið til að grafa í hauginn; en enginn vissi meira um þetta efni né hvernig á því hefði staðið. Einhvers konar óskýr grunur hafði samt tengt alla þessa atburði saman og upp frá þeim degi lék það orð á að enginn mundi komast klakklaust af sem dirfðist að brjóta Hreiðarshól og sækja haugbúann heim eða „vekja Hreiðar undir viðarrótum“. Sumir sögðu um þær mundir að presturinn í sókninni hefði líka snefil af þessari almenningstrú, en sumir báru á móti því og kölluðu hann vera hyggnara prest en svo að hann hræddist moldir dauðra manna, en gátu hins til að honum mundi þykja of mikil fyrirhöfn og tímatöf að grafa sundur hóla og fá svo ekkert í ómakslaun nema, þegar best léti, afgamla öxi eða ryðgað sverð er varla yrði notað í tálguhníf.
Mér þykir samt líkast til að hvorugir þessara manna hafi verið svo heppnir að geta sér rétt til um, af hverju presturinn hafi ekki viljað láta ónáða Hreiðarshól. Þetta ræð ég af ýmsum atvikum sem getið skal verða seinna þar sem best á við. En skátlist mér í þessu efni, þá er samt eftir að vita hvort aðrir hvorir hinna hafa rétt fyrir sér að heldur; að minnsta kosti þykir mér líklegt að hafi presturinn verið „hygginn“ eins og þeir segja með berum orðum er geta til þess hann hafi séð í tímatöfina, þá skjátlist þeim í því, hvað sem öðru líður, að hann hafi haldið fornleifar vorar Íslendinga væru ekki dýrmætari en svo að þær væru helst notandi til að smíða úr þeim eitthvert áhald, til að mynda hníf eða ljá, því slíka fásinnu get ég varla ætlað neinum bónda um þessar mundir; miklu fremur býst ég við að hver Íslendingur sem annaðhvort hefir nú að varðveita einhvern fornan grip eða kynni að eignast hann eftirleiðis, muni meta allt þess háttar svo sem dýrmætar menjar feðra vorra og þjóðareign er ekki má selja úr landi, þó gull væri í boði, og því síður glata því eða spilla svo...
Veleðla herra stúdíósus! ástarheilsun.
Nú er einasta efnið miðans að þakka yður fyrir allt gamalt og gott og góða viðkynning mér auðsýnda sem ég jafnan vildi minnugur vera til hins besta. Fátt er nú í fréttum að segja utan mína bærilega vellíðun, l.s.g. Og þó hefði ég ekki núna farið að tefja mig frá heyinu ef öngvar væru fréttirnar að skemmta yður með. Nóg er í fréttum, vinur minn! og svo fáið þér sendingu þar á ofan, ef kaupmaðurinn tekur hana af mér, og kynlega sendingu sem enginn veit hvað þýðir fyrr en ég er búinn að skýra frá því öllu saman og þér eruð búinn að brjótast fram úr tilskrifinu, því það má segja um mig: „betur rita krummaklær“ o.s.frv. eins og kveðið var á Bægisá einhvern tíma. Þér munuð hafa heyrt að faðir minn er nú dáinn og að ég hef tekið við búinu eftir hann. Það gengur svona og svona; árferðið er svo bágt að ég hef lítið getað aðhafst sem framtak sé í og veit ekki að kalla má, enn sem komið er, hvort að ég fyrir nokkurn hlut megi teljast dugandi bóndaefni. Hann bróðir minn, sem guð tók, var í öllu mér fremri og hefði hann lifað, þori ég að segja Knappstaðir hefðu bráðum orðið besta jörðin í þessari sveit; en nú ætla ég hún muni níðast eins og aðrar fleiri. En því ætli ég sé að minnast á missinn fyrst hann verður ekki bættur; mér datt hann svona í hug, hann Sigurður heitinn, út úr því sem ég ætlaði að fara að segja yður frá.
Þér munið eftir Hreiðarshól. Í ungdæmi mínu fórum við bræður einu sinni að grafa í hann. Fólkinu á bænum var ekki um það og faðir minn taldi okkur af því en bannaði það samt ekki með öllu, því hann var enginn hjátrúarmaður; en vildi heldur láta okkur vinna fyrir gýg en vekja okkur grun um að hann væri hræddur um að reiði haugbúans yrði okkur að grandi. Við fórum þá að grafa og gekk það slysalaust fyrsta daginn. Um kvöldið töluðum við bræður um að nú mundi haugbúi birtast okkur í draumi um nóttina og líklega hóta okkur reiði sinni. Ekkert varð samt af því. Þegar við vöknuðum um morguninn hafði okkur ekkert dreymt og fórum við til verks okkar eins og fyrra daginn. En þegar leið að dagmálum kom maður ríðandi og þekktum við bráðum að það var presturinn. Hann heilsaði okkur vinsamlega og sagðist vera kominn að finna okkur. Við hættum þá að grafa og settustum við allir niður sunnan undir hólnum.
„Ég vissi ég mundi hitta ykkur að þessu verki,“ sagði presturinn, „og er nú kominn til þess að biðja ykkur að hætta því; ætli þið munið láta það að orðum mínum?“
Sigurður varð fyrri til svars, hann var líka eldri: „Ég veit ekki, prestur góður!“ sagði hann dálítið kímilega, „það held ég samt varla, nema ef þér gjörið svo vel að segja okkur hvers vegna þér beiðist þess.“
„Það geri ég þess vegna,“ sagði presturinn, „að ég veit víst að ykkur er til einskis að rjúfa hauginn; þið finnið ekkert í honum, því haugurinn er rændur áður.“
Þetta þótti okkur kynleg saga.
„Hvernig farið þér að vita það?“ sagði bróðir minn, „það verðið þér að segja.“
Prestur svaraði því ekki en spurði aftur á móti: „Hvernig haldið þið ég hafi vitað hvað þið voruð að hafast að? enginn hefur farið á milli síðan í gær og getað sagt mér frá því.“
Þetta áttum við bágt með að skilja, því við vissum að presturinn sagði satt, við gegndum honum engu.
„Mig dreymir stundum,“ sagði hann þá; „í nótt til að mynda dreymdi mig mann; ég þarf ekki að lýsa honum fyrir ykkur, því ég ætla hvorugan ykkar að hræða; en útlit hans bar allt saman með sér að hann var kominn þaðan sem enginn hverfur aftur til vakandi manna; hann gekk að rúminu þar sem ég lá og kvað þessa vísu:
og þarf ekki að brjóta tóman haug,“ sagði myndin, „en gjarnan vildi ég vera heim borinn. Nú gjör fyrir mín orð og bið þá hina ungu menn að þeir láti kyrrt um sinn en rjúfi þá hauginn er þeir hafa fundið mig áður; mun þeim vænna til hamingju að bera bein mín til moldar en brjóta nú híbýli mín með ránshug og fíkjast þar til fjár sem ekki er.“
„Þetta dreymdi mig,“ sagði prestur, „og vildi ég þið létuð nú að orðum mínum og hættuð þar sem komið er en segðuð ekki öðrum frá viðtali okkar fyrst um sinn, því mér kunna að verða lagðar misjafnt út tillögur mínar; skuluð þið mega biðja mig bónar aftur á móti einhvern tíma þegar ykkur líst.“
Við bræður vissum ekki hvað við áttum að hugsa um sögu prestsins en létum samt að orðum hans; mokuðum við þá moldinni ofan í gröfina og var það ekki langrar stundar verk. Prestur þakkaði okkur auðsveipnina og fór nú aftur heim til sín; við fórum líka heim og sögðumst hafa hætt af því við hefðum komið ofan á grjót og möl; en aðrir sögðu við hefðum hlaupið burtu af því okkur hefði sýnst bærinn vera að brenna.
Nú leið og beið – presturinn fór í burt á annað brauð, bróðir minn varð úti, faðir minn sálaðist og ég var orðinn bóndi á Knappstöðum.
Einu sinni í sumar var ég að vitja um silunganet í ánni skammt fyrir neðan Hreiðarshól. Straumurinn hafði borið það upp undir bakkann og fest það um hnaus. Ég reyndi að kraka netið upp með stöng og gekk það ekki greitt, því eitthvað þungt var í því og hélt ég fyrst það væri hnaus eða steinn; en þegar það kom upp sá ég að þetta var beinabaggi, vandlega reyrður með snæri, og var svo fúið að bagginn losnaði allur í sundur þegar ég fór að hrófla við honum. Ég sá að þetta voru mannsbein gömul og skinin og vantaði höfuðið. Þetta þótti mér kynleg veiði og gat með engu móti skilið í hvernig á henni stóð.
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Vísur haugbúans voru prentaðar í: Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson. B. Pjetursson og K. Gíslason hafa sjeð um prentunina. Khöfn 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 299-305. Reykjavík: Svart á hvítu.