„Sjö sinnum sjö eru 49,“ sagði Hallur í Skollafit; það er föstutíminn og þá má enginn nefna kjöt - varaðu þig, maður, á að syndga! ég hef komið að honum í tunglsljósi þar sem hann sat á eldhúsglugga og seildist inn á rárnar og talaði við sjálfan sig í hálfum hljóðum. – Hann sagðist liggja á dorg og vera að veiða og hélt það væri hverjum manni heimilt.
Og þegar hann kom á þingið og sýslumaðurinn sagði hann hefði stolið, þá bar hann ekki á móti því, nema hvað hann neitaði það hefði verið kjöt.
„Ég hef tekið klauflax,“ sagði þjófurinn, „og býst við að verða hýddur; en það er best að bera sig karlmannlega!“
Það bar ekki heldur á honum að hann væri sérlega daufur. En þegar honum var lesin upp þingbókin og hann heyrði þar stóð „fimm fjórðungar af kjöti“, þá fór hann að gráta og sagði við dómarann: „Krofið var fimm fjórðungar; en hitt voru ekki mín orð; skrifið heldur 6 fjórðunga og setjið þér klauflax.“
Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 330. Reykjavík: Svart á hvítu.