(Úr þjóðversku)
Einu sinni var fátækur kolamaður. Hann bjó út við skóg og átti sér konu og eitt barn; það var þrevetur stúlka. Þau áttu svo bágt að þau höfðu ekki málungi matar og vissu ekki hvað þau áttu að gefa barninu. Þá gekk kolamaðurinn út á skóg til vinnu sinnar, áhyggjufullur í huga. En meðan hann var að kurla, sá hann konu mikla og fagra standa fyrir sér; hún hafði á höfði sér skínandi stjörnuhring og mælti svo til hans: „Ég er María mey, móðir guðssonar; þú ert fátækur og hjálparþurfi; færðu mér dóttur þína; ég ætla að taka hana með mér og vera henni í móður stað og annast hana.“
Kolamaðurinn sótti barnið heim og fékk það í hendur Maríu mey; en hún tók við því og fór með það upp til himna. Þar átti barnið gott og borðaði sætabrauð og drakk nýmjólk og var í gulllegum klæðum og lék sér við englana.
Þegar það var orðið fjórtán vetra gamalt, kallaði María mey einu sinni á það og sagði: „Barnið gott! ég á langa för fyrir höndum. Geymdu þessa lykla – þeir ganga að þrettán sölum himnaríkis; þú mátt ljúka tólf af þeim upp og horfa á þeirra fegurð og dýrð, en þrettándu dyrnar, sem litli lykillinn gengur að, eru þér bannaðar og varastu að ljúka þeim upp, eða það verður þér til óhamingju.“
Stúlkan lofaði að vera henni hlýðin; og þegar María mey var komin af stað, fór hún að skoða bústaði himnaríkis og lauk upp einum á dag, þangað til tólf voru búnir. Í hverjum sal sat einn postuli og þar var svo mikill ljómi að hún hafði ekki á ævi sinni séð slíka dýrð og prýði, svo hún var frá sér numin af gleði og englarnir voru alltaf hjá henni og samfögnuðu henni.
Nú voru ekki eftir nema þrettándu dyrnar sem henni voru bannaðar og langaði hana ógn til að vita hvað þar væri inni fyrir og sagði við englana: „Ég ætla ekki að ljúka þeim upp til fulls en opna ofurlítið svo við getum horft inn um rifuna.“
„Æ, nei,“ sögðu englarnir, „það væri rangt; María mey hefur bannað það og það getur orðið þér til óláns.“
Þá þagnaði hún en löngunin og forvitnin þögnuðu ekki; og einu sinni þegar englarnir voru ekki við, hugsaði hún með sér: „Nú er ég alein og enginn sér til mín“ og sótti lykilinn og stakk honum í skráargatið og sneri honum. Þá hrökk hurðin upp og hún sá heilaga þrenningu sitja þar í eldlegum ljóma og snerti ljómann aðeins með einum fingri en fingurinn fékk á sig gullslit. Þá varð hún dauðhrædd og skelldi aftur hurðinni og hljóp burt. Hræðslan gat ekki farið af henni; hvað sem hún gerði til, barðist í henni hjartað og gat ekki verið kyrrt, og gullið sat á fingrinum og fór ekki af hvernig sem hún þvoði hann.
Að fám dögum liðnum kom María mey heim aftur, kallaði á stúlkuna og sagði: „Fáðu mér aftur himinslyklana.“
Um leið og hún rétti henni lyklakerfið, horfði María á hana og sagði: „Hefurðu ekki lokið upp þrettándu dyrunum?“
„Nei,“ sagði hún.
Þá lagði María höndina á brjóstið á henni og fann hvernig hjartað barðist og sá að hún hafði brotið boðorðið og lokið upp dyrunum. Þá sagði hún aftur: „Er það víst að þú hafir ekki gert það?“
„Nei,“ sagði stúlkan í annað sinn.
Þá varð Maríu litið á gullroðna fingurinn sem komið hafði við himinljómann og sá hún þá fyrir víst að stúlkan var sek og sagði í þriðja sinn: „Hefurðu ekki gert það?“
„Nei,“ sagði stúlkan í þriðja sinn.
Þá sagði María mey: „Þú hefur ekki hlýtt mér og skrökvað; þú verðskuldar ekki að vera lengur í himnaríki.“
Þýðing sem ekki er til í eiginhandarriti.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 317-319. Reykjavík: Svart á hvítu.