Valstika

Úr gamanleik

Úr gamanleik

(Prestur:) „. . . hold“, segir Job. Kennið þér ekki í brjósti um gamlan manninn? Kyssið þér mig nú einu sinni, madama Anna! – (Vill láta vel að henni).

Anna (í því hún slítur sig af honum): - Ef þér ekki látið mig grafkyrra . . . (Afsíðis): - Ég er þá komin í ljótu vandræðin með karlskrattann. (Gengur að glugganum og horfir út): - Hér kemur maður ríðandi, séra Bessi; nú er yður eins gott að fara á stað.

Prestur: Hægt um það, mín kær; ég fer ekki eitt fet, segi ég enn. (Gáir út). Það er þá dáið hann Egill skáldi! Hann vil ég ekki sjá og héðan vil ég ekki fara. Hvern andskotann -? Þér megið til að fela mig, Anna.

Anna: Að fela yður? – (Lítur snögglega á dragkistuskúffuna stóru, sem er dregin fram). – Ja, séra Bessi, ef þér getið komizt fyrir í skúffunni þeirri arna á meðan, þá er yður það velkomið. –

Prestur: Ó mín góða Anna, mitt bezta barn! Er yður það alvara? – (Hann leggst fljótt niður í skúffuna. – Svona! – Svo það var allt saman gaman. – (Í því Anna er að læsa). – En leyfið mér, að ég offereri yður deshúsi Höllu minnar.

Anna (við sjálfa sig): - Frá er hann! Væri nú Egill skáldi eins laglega kominn í handraðann. –

Þetta er brot úr gamanleik. Eiginhandarrit er varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol. Handritasafn Bókmenntafélagsins).
Heimild:
Jónas Hallgrímsson í óbundnu máli, bls. 46-47. (1946). Tómas Guðmundsson gaf út. Reykjavík: Helgafell.