(Ævintýri, nokkurn veginn eftir H.C. Andersen)
Einu sinni voru leggur og skel; þau lágu bæði í gullastokki innan um önnur barnagull, og svo sagði leggurinn við skelina: „Eigum við ekki að taka saman, fyrst að við á annað borð liggjum hér í sama stokknum?“
En skelin var úr sjó og þóttist töluvert, rétt eins og ung heimasæta – en hún var nú samt ekki heimasæta – og vildi ekki gegna því neinu. Þar var líka í stokknum gömul gjarðarhringja, slitin og fornfáleg, en hún var samt úr eir.
Hún sagði við skelina: „Ekki vænti ég þú viljir heyra mér út í horn?“ Og skelin sagði „jú“ og svo fóru þau bæði út í horn.
Þá sagði hringjan: „Ekki vænti ég þú viljir eiga þér mann, ríkan og forstöndugan, ekki svo mikið upp á bókaramennt?“
En skelin var úr sjó og skildi ekki þessa kurteisi, þóttist líka töluvert, rétt eins og ung heimasæta, og þagði eins og steinn.
Þá sagði hringjan: „Æ! segðu nú já, hjartans lífið mitt góða!“
En skelin sagði ekki annað en „nei“ og svo töluðu þau ekki meira saman.
En nú kom drengurinn sem átti gullastokkinn og tók legginn og batt um hann rauðum þráðarspotta og reið honum um pallinn, og seinast tók hann látúnsbólu og rak í endann á honum; það var ekki mjög ljótt að sjá skína á bóluna þegar leggnum var riðið.
„Líttu nú á mig,“ sagði hann við skelina, „hvernig líst þér nú á? ættum við nú ekki að taka saman? hjónasvipur er með okkur; þú ert úr sjó og ég er úr lambsfæti; ég sé ekki betur en það geti farið vel á með okkur.“
„Á! haldið þér það?“ sagði skelin, „þér munið líklega ekki eftir að ég er rekin á fjöru og er orðin forfrömuð; kaupmaðurinn hefur fundið mig sjálfur og étið úr mér fiskinn og ég hef komið á meir en einn postulínsdisk.“
„Satt er það,“ sagði leggurinn, „en ég er líka úr golmögóttum lambsfæti og hef verið súrsaður, blessuð mín! og presturinn hefur borðað af mér sjálfur, og nú er búið að setja bólu í endann á mér, eins og þú getur séð.“
„Er það nú víst?“ sagði skelin.
„Svei mér ef – fari ég þá sem – skammi mig ef ég skrökva,“ sagði leggurinn.
„Þér getið komið fyrir yður orði,“ sagði skelin, „en ég má það ekki samt; ég er hálflofuð að kalla má; það er fífill í hlaðbrekkunni, eins og þér vitið, og þegar drengurinn ber okkur út, gullin sín, hefur hann oftar en einu sinni lagt mig niður hjá fíflinum og þá hefur fífillinn sagt: „Viljið þér koma til í það?“ og ég hef sagt „já“ svona í huga mínum innanbrjósts og það álít ég hálfgildings lofun. En því lofa ég yður að ég skal aldrei gleyma yður.“
„Það er nú til nokkurs,“ sagði leggurinn, og svo töluðu þau aldrei saman.
Daginn eftir kom drengurinn, sá sem átti gullastokkinn, og tekur hann og fer með hann og allt saman út í hlaðbrekku. Þá var sólskin og sunnanvindur, skýskuggar flugu yfir engin, og fífan hneigði sig á mýrinni í hvert sinn og hún dökknaði, og það gekk eins og bárur yfir puntinn á túninu, dalurinn skein allur í grösum og blómum.
Skelin lenti hjá fíflinum eins og vant var, því börn eru oft vanaföst í leikum; hann leit á hana stundarkorn og sagði: „Viltu eiga mig, hróið mitt?“
„Það vil ég fegin,“ sagði skelin.
En fífillinn sagði: „Þú færð það nú ekki samt, góðin mín!“ og svo horfði hann aftur í sólina, nærri því eins brosandi og áður.
Þá kom sláttumaðurinn með orf og ljá og fór að bera út. Drengurinn varð að flýta sér burtu með gullin sín og skelin varð óvart eftir í hlaðvarpanum.
„Hvað er orðið af skelinni minni?“ sagði drengurinn, „ég var með hana úti í varpa þegar farið var að slá.“
En fólkið sagði: „Hún hefur farið í heyið; hún finnst ef til vill þegar gefið er kúnum eða þá í moðinu í vor.“
En leggurinn heyrði allt sem fólkið sagði og honum sveið það sárt. Hann hugsaði með sér: „Nú hefur skelin átt fífilinn í heyinu; það er útséð um það.“
Og því lengur sem hann hugsaði um þetta, því meira sárnaði honum og það kom til af því, að hann gat ekki fengið skelina sjálfur; svo óx ástin dag frá degi; þetta: að eiga annan, það var svo óbærilegt. Leggurinn lá og kúrði og vildi feginn geta sofið en það gat hann ekki og ekkert nema hugsað um skelina; alltaf varð hún fallegri og fallegri; veturinn leið, og svo voru það orðnar fornar ástir, því leggurinn hafði elst og var nú farinn töluvert að framast; drengurinn hætti einu sinni að ríða honum og fleygði honum út í skot, en ein vinnukonan fann hann og litaði hann fagurgrænan, eins og við þekkjum, og vatt svo upp á hann þráð; og nú fékk hann bæði embætti og nafnbót og var kallaður þráðarleggur; það var nú ofurlítill munur! En svo hvarf hann um vorið og enginn vissi hvað af honum varð; það var leitað og leitað, af því hann var þráðarleggur, en hann fannst hvergi. Hvað var þá orðið af þessum embættislegg með nafnbót sem enginn lifandi maður gat fundið? Það skal ég segja þér: hann lá úti á haugi; hann hafði óvart verið borinn út í sorpinu. Þar var lítið um dýrðir, gamlir íleppar og skóvörp og annað þaðan af verra.
Leggurinn gaut hornauga til þessa samsafnaðar og sagði eins og von var: „Jú, jú! ég er fallega settur innan um allan þennan hroða!“
En svo sér hann skel, ef svo mætti kalla, kolmórauða og skörðótta, og gott ef ekki rifna, og það var sama skelin sem árinu áður hafði legið í sólskininu frammi í varpa og ætlað sér að eiga fífilinn og farið í heyið.
„Fegin verð ég,“ sagði skelin, „að einhver kemur hér sem talandi er við. Komið þér sælir!“ sagði hún og virti legginn fyrir sér; „ég er í rauninni úr sjó og rekin á fjöru og hef verið forfrömuð; kaupmaðurinn hefur fundið mig sjálfur og borðað úr mér fiskinn og ég hef komið á meir en einn postulínsdisk; nú er það ekki á mér að sjá; ég var rétt komin að því að eignast fífil; en svo var slegið túnið og ég lenti í heyinu og svo í moðinu og fjóshaugnum og var borin á völl og borin af aftur þegar hreinsað var; það er löng bið, eins og þér skiljið, fyrir unga stúlku.“
En leggurinn svaraði engu; hann var að hugsa um unnustu sína sem verið hafði; og eftir því sem hann heyrði skelina tala lengur, sá hann alltaf betur og betur að þetta væri sama skelin og sé nú þar komin.
Þá kom vinnukonan að kasta úr sorptrogi. „Hér er þá leggurinn minn,“ sagði hún, og svo tók hún hann upp og bar hann inn í bæ; og hann var allur þveginn og þótti fallegur enn, og varð aftur þráðarleggur og var geymdur lengi, og bólan sat alltaf í endanum á honum sem drengurinn hafði rekið í; en skeljarinnar er ekki getið og leggurinn nefndi hana aldrei á nafn. Ástin fyrnist þegar unnustan hefur farið í moðið og fjóshauginn og verið borin á völl; maður þekkir hana ekki aftur þegar maður rekst á hana í sorpinu.
Þýðing sem ekki er til í eiginhandarriti. Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847. [Athugasemd neðanmáls: „Sb. Kjærestefolkene i Nye Eventyr af H.C. Andersen, Kjöbenhavn 1844.“]. Heimild: Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 313-316. Reykjavík: Svart á hvítu.