Valstika

Stúlkan í turninum

Stúlkan í turninum

Einu sinni var fátækur fiskimaður og átti sér dóttur; hún var ung og fríð. Eitt kvöld gekk hún niður í fjöru til að vita hvort hún sæi föður sinn koma að. Þá spruttu þar upp víkingar og ætluðu að taka hana og hafa hana á burt með sér. En stúlkan flýtti sér og hljóp undan eins og fætur toguðu. Skammt í burtu þaðan var gamall turn og farinn víða að hrynja. Enginn maður þorði að koma nærri honum, af því menn héldu hann væri fullur með drauga og forynjur. En stúlkan var svo hrædd að hún hugsaði ekki eftir því og hljóp inn í turninn og ofan stiga þangað til hún kom niður í jarðhús. Þar vóru blóðslettur um gólfið og járnhlekkir í veggjunum. Hún hljóp í ósköpum fram hjá þessu öllu saman og upp einn skrúfstiga og inn um dyr inn í klefa í turninum. Þar sat stór og hræðileg ugla og starði á hana og brann úr augunum. Stúlkan sneri við og ætlaði að flýja, en í því bili datt stiginn niður.

„Þú verður nú að vera hér,“ segir uglan, „og þú skalt eiga fullgott. Ég ætla að kenna þér að una betur nóttinni en deginum. Hér liggja nokkur epli; þegar þú borðar eitt þeirra, þá fer af þér hungur og þorsti; og hérna er rúm sem þú getur sofið í þegar þú vilt. Ég sef allan daginn og þá máttu ekki bæra á þér svo ég hrökkvi ekki upp; ellegar ég steypi þér út um vindaugað.“

Síðan flaug uglan í burt en stúlkan sat eftir grátandi.

Skömmu síðar kemur uglan aftur og hefur með sér mikinn hóp af leðurblökum. Þær fljúga allar fram hjá stúlkunni og inn um vegginn, rétt á móti vindauganu. Hún stóð upp og fann á veggnum átthyrnda smugu og ofinn yfir dordingulsvef. Hún gægðist inn um þetta gat og sá þaðan langt í burt, eins og í þoku, bjartan sal og allt ljómandi, eins og sæi á silfur og gull, og margar myndir í skínandi klæðum bæra sig til og frá. Á þetta starði hún langa stund þangað til að dimmdi allt í einu; síðan settist hún niður og hugsaði um þenna fyrirburð.

Litlu síðar flýgur aftur uglan og leðurblökurnar fram hjá henni út um vindaugað. Þegar dagaði kemur uglan heim, sest út í horn og fer að sofa. Stúlkan var að horfa út í dagsbirtuna; en svo var hún hátt uppi að ekki sá til jarðar, heldur aðeins loftið og ólgusjóinn.

Þegar hana svengdi borðaði hún dálítið epli og varð södd af því. Síðan varð hún syfjuð og hallaði sér út af. Að aflíðandi hádegi vaknaði hún aftur, og horfði á loftið og sjóinn og illfyglið þar sem hún svaf. Hún sat grafkyrr og þorði ekki á sér að bæra og þótti þetta leiðinleg ævi.

Uglan vaknaði þegar fór að dimma og tók svo til orða: „Hvort unir þú betur nóttinni eða deginum?“

„Deginum,“ sagði stúlkan; þá flaug uglan út og sótti leðurblökurnar.

Síðan fór allt fram eins og hina fyrri nótt og gekk svo nokkrar nætur, nema hvað allt var að færast nær og verða skýrara fyrir henni, salurinn með ljósunum og fallegt fólk á björtum klæðum sem borðaði dýrar krásir við fagurt borð og ríkulega búið.

Á hverju kvöldi spurði uglan hana, við hvort henni væri betur, nóttina eða daginn; en hún sagði alltaf að sér væri betur við daginn. En þó fór hún að hika sér meira og meira, eftir því sem á leið, þangað til uglan segir við hana: „Undir eins og þú svarar mér því að þér sé betur við nóttina, þá skaltu komast í veisluna með okkur og sitja þar við borðið hjá skrúðbúna fólkinu og fá eins fögur klæði eins og það.“

Morguninn eftir gat stúlkan ekki sofið og var einlægt að hugsa um hverju hún ætti að svara uglunni um kvöldið. Þá heyrði hún á baki sínu vera sagt í hálfum hljóðum: „Stúlka litla! unntu meir deginum eins og þú hefur gjört.“

Hún vissi ekki hvað þetta var, sneri sér við og spurði hver talaði.

„Þei, þei,“ sagði röddin, „vektu ekki ugluna.“

Þá sagði stúlkan í hálfum hljóðum: „Segðu mér hver þú ert.“

Þá sagði röddin: „Ég hef verið maður og varð fyrir því óláni að villast hingað inn eins og þú; ég var nærri dauður af leiðindum og fór út með uglunni eina nótt, en um morguninn varð ég að þessari leðurblöku og þoli nú ekki framar að horfa í blessaða dagsbirtuna. Mig langar til að frelsa þig; þess vegna hef ég nú falið mig – hafðu ekki hátt! nú vaknar ókindin.“

Uglan varð bálreið þegar stúlkan svaraði henni því að sér væri betur við daginn. Hún skók að henni vængina og eldur brann úr augum hennar.

Þegar allur hópurinn var floginn inn um vegginn, þá kom leðurblakan aftur út úr skoti sínu.

„Ætlar þú ekki inn líka?“ sagði stúlkan.

„Nei,“ sagði leðurblakan, „þangað ætla ég ekki oftar að fara og gerðu það fyrir mig að fara ekki að smugunni til að horfa inn.“

Stúlkan sagði þá: „Getum við með engu móti losnað?“

„Jú,“ sagði leðurblakan, „þú getur losnað ef þú hefur hug til að drepa ugluna. Þegar hún sefur verðurðu að læðast aftan að henni, taka báðum höndum utan um hálsinn og kyrkja hana; en það er þinn bani ef hún vaknar áður en þú nærð utan um hálsinn.“

Stúlkan svaraði: „Mér leiðist þessi ævi; þess vegna ætla ég að reyna það.“

Morguninn eftir, meðan uglan svaf, stóð hún hægt á fætur en skalf þó af hræðslu að uglan mundi vakna. Hún gat komist aftan að henni og tók utan um hálsinn báðum höndum eins fast og hún gat. Óvinurinn hamaðist, þandi út klærnar, barðist um með vængjunum og ranghvolfdi í sér augunum svo voðalega aftur á bak að stúlkan var nærri búin að sleppa henni af hræðslu. Þá kom leðurblakan og breiddi vængina yfir augun á henni þangað til hún var kyrkt. Stúlkan var svo máttfarin að hún gat ekki staðið fyrir þreytu; en í sama bili hrundi turninn og varð að engu, og þegar hún vaknaði við, stóð hún á grænu grasi í björtu sólskini; við hliðina á henni stóð ungur maður og sagði við hana: „Ég er leðurblakan sem talaði við þig og þú hefur frelsað mig; faðir minn er ríkur konungur; förum til hans og gerum brúðkaup okkar.“

Síðan gengu þau fyrst heim í kofann til foreldra hennar og beiddu að lofa sér að eigast, og þaðan heim í kóngsríki og fengu góðar viðtökur, eins og þið getið nærri.

Eiginhandarrit er ekki til.
Frumprentun í: Fjölnir 9. ár, 1847.
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi: Ljóð og lausamál, bls. 306-309. Reykjavík: Svart á hvítu.