Valstika

Salthólmsferð

Salthólmsferð

Sendibréf herra Jónasar Hallgrímssonar til sinna samferðamanna

Hæstvirtu herrar og meðb . . . . r!

Ég er nú á ferðinni til Salthólms og verð að rita ferðabók, sosem eins og við værum allir á inni miklu ferð til Hveneyjar. Ég er nú á ferðinni til Salthólms, og rita þetta, eins og þið getið nærri, úti hjá fagurri kvinnu í gulu húsi, eins og þið getið nærri. Ég lagði á stað úr Khfn. um miðdegi og nú er varla ein stund til náttmála, enda hef ég náð 3 eða 4 dauðum dýrum af ættstofni lindýranna, sem ég hef aldrei áður séð. Þau sátu föst á kalksteini gráum og fornum, rétt fyrir utan skemmuna, sem meistari Lindberg prédikar í. Hvur em eg, að eg líki mér við Lindberg? – Piltar góðir, þetta ætlar að verða undarleg sjóferð. Ég er búinn að reykja tvær tóbakspípur og drekka sosem hálfan pela af frönsku brennivíni, en vindurinn hefur verið á móti mér, so ég er ekki kominn lengra en þetta. Áður en ég fór af stað, taldi ég í sjóðnum, eins og Hindenburg hefur fyrir mælt.

Þar voru 3rd. 68 sk.
Þar að auki í pjáturstokki brauð og smér fyrir 18
frakkneskt brennivín fyrir 16
tóbak fyrir 11
tinnur og tundursvampur fyrir 2
   
Með öllu 4rd. 19 sk.

Þetta hafði ég til ferðarinnar og er nú farinn að eyða af því öllu saman; þegar ég kem í náttstað í kvöld, skal ég reyna til að virða það og rita ykkur greinilega, hvað mikið hefur eyðzt. Ég hef ekkert séð merkilegt, nema hjólskip mikið og fagurt (líklega svenskt), og mórauðan sauð, íslenzkan, sem stappaði niður fætinum, þegar hann sá mig. Ég hef líka reynt að geta mér til, hvað margir faðmar af eldiviði væru í trjánum á leiðinni, það hafa verið tveir og þrír faðmar og mest 6 og hálfur, eins og þið getið nærri. Ég gleymdi að bera tólg á posteriora, áður en ég fór af stað. Hvur em eg, að ég líki mér við Hindenburg?

____

Skrifað á Táralæk, 27. júlí 1836.

Nóttin er liðin, herra, og morgunroðinn ljómar þarna úti. Ég hef sofið vært í 4-5 tíma, nema hvað bræður okkar vöktu mig, svínin á Táralæk, mikil og feit og gullfallegt búsílag. Sængurkonan eða konan, sem þjónar mér til sængur, hún er so góð í sér og viðkunnanleg, að ég get ekki gert gys að henni í þessum reikningi. Reikningurinn er 36 skl. með öllu og öllu, mjólk og brauð og sætt kaffi; stallmeistarinn á Táralæk segir að það sé gott. – 12 skl. handa Bagge á Bellevue og skammir um landið! Það var nóg handa honum! So hef ég séð Markús guðspjallamann og undarlegan kola í fjörunni, en hafði ekki tíma til að kryfja hann.

____

Geologisk Excursion, safnaði steinum og skeljum og skoðaðir bakkarnir frá Táralæk og út undir Strandmyllu. Galerites albogalerus í mergillagi fyrir ofan bláleirinn.

  • Strandmyllan er hefðarhús;
  • hriktir þar allt og skrjáfar;
  • ég sá fló og færilús
  • á fuglinum honum Láfa.

„Du slaaer ikke 4-5 Kegler!“ sagði Ólafur; „þú hnekkir trauðlega 7 ballarstrýtum í högginu“, sagði ég. Þá kom hugur í báða og fórum að hnekkja strýtunum; - einn skl. fyrir höggið, og sona vann ég 42. Því næst át ég sauðarkjamma og blóðrauðan graut hjá Þórði mínum Daníelsyni, horfði yfir landið og sjóinn, sá pappírinn verða til, - að ógleymdri fjölinni, sem álabörnin skríða á. Strandmyllan er hefðarhús, hriktir þar allt og skrjáfar!

____

Geologisk Excursion. Kalkhellur og mergillög í sandgröfinni fyrir sunnan Vedbekk og fallegt dýr í tinnu (galerites?).

____

Vedbekk – um nónbilið; - lærðar viðræður, falleg stelpa og kaffi á 8 skl. Berfættur samferðamaður. Ævintýrið í Fuglehave-gaard og gryfjurnar þar í skógnum.

____

Hirschholm. Brauð og tevatn fyrir 11 skildinga (Thevandsknegten!). Kirkjan og ekkjan. Geologisk Excursion til mógrafanna. Þaðan ók ég spölkorn með bónda og gaf honum 8 skl. Skógurinn.

  • Gekk ég í Gribbskógi,
  • gola þaut í blöðum,
  • örn flýgur yfir,
  • ormur skríður í mosa;
  • þá var dauflegt,
  • er dagskvöldi á
  • vargar góu
  • hjá viðarrótum.
  •  
  • Ein sat hún úti
  • augna-hýr
  • og mjúkhent
  • á mosaþúfu,
  • þar sem lambkind
  • lék sér í rjóðri;
  • kyssti ég kotbarn,
  • það kostar ekki par.

____

Friðriksborg 28. júlí um morguninn. Þetta er undarleg sjóferð, piltar góðir! Ég er nú á ferðinni til Salthólms, so það er ekki að kynja, þó ég væri votur eins og skolaköttur, þegar ég kom hingað í gærkvöldi. Ég ætlaði að finna herra Ulriksen, en villtist inn í sjónarleikahúsið hans herra Bekkers. Þar var verið að ljúka við „Kotzebues Mord, Mimiskplastisk Forestilling i 12 Billeder“. Guð sé oss næstur! Ég hef sofið í alla nótt og hér er falleg stelpa, en ég hef ekkert að kalla getað talað við hana. Nú fer ég að borða árbitann minn og so að skoða bæinn. Veðrið er mesta óhræsi.

____

Veðrið er að skána, ég er búinn að borða og herra Ulriksen hefur fengið hjá mér 85 skl. Það var of mikið handa hönum og nóg handa mér. Nú fer ég að skoða bæinn, og þyrfti þó, ef vel væri, að bíða dál’tið enn til að erta herra Ulriksen, hann er hræddur um konuna sína eins og ég væri tigris aspera Gaetulusve leo, síðan hann heyrði ég væri Íslendingur. Ólafur karlinn mun hafa hvekkt hann, vesaling. Konan er hér um bil 17 vetra, lítil og snyrtileg og glaðleg; ég uppgötvaði hana í morgun í eldhúsinu. Múrmeistarinn segir um Ólaf vorn „han rendte bestandig her over til os; - det er en munter Herre, den samme Johansen; hils ham ellers meget flittig fra mig, naar de kommer til Kjöbenhavn“.

  • Ólafur sjóli einn í borg
  • alla verta þreytir.
  • Ólafur rólar einn um torg
  • Afmors kerta beitir,
  • Ólafur tóla einn með dorg
  • æðir í sterta leitir,
  • Ólafur stólar upp á Borg*)
  • . . . . . . . . . .
  • *) Crediten leve!

Ég hef reynt til að ná í jómfrú Lichtenstein, en það var ekki hægt,

____

  • Sólin upprunnin er
  • á austursíðu,
  • fjalltinda forgyller,
  • með hálsahlíðum.

Fjalltindarnir eru turnarnir hérna á Baksverði, (því nú er ég hér kominn) og hálsahlíðarnar, þær eru líklega rassinn á vertinum, sem stendur álengdar og snýr að mér bakinu, gefur mér samt auga við og við, af því hann sér ég er að rita í dagbókina mína. Hindenburg segir, að króarvertum sé ekki um það. Þetta er um morguninn 29. júlí. Ég hef ekki komið því við, að skrifa neitt fyrr en hér. – So ég víki aftur til Friðriksborgar, þá skoðaði ég borgina vel og vandlega. Utan! aumur maður, komst ekki inn fyrir peningaleysinu. So spurði ég mig fyrir um kalknámurnar og fór af stað.

____

Lítill jarðfræðingur 4 vetra og mjólkin hans Povelsens. Upplýsingar um herra Ulriksen. Ég gekk nefnilega sama veg og ég kom, gegnum „Prestevangen“, og „Frederiksborg-Dyrehave“ til Paulsens, skógarfógetans. Þaðan gegn um Lilleröd til Lynge og á króna til Madömu Andersen, því maðurinn var ekki heima; brauð og brennivín og kaffe fyrir 18 skl. Upplýsingar um herra Ulriksen og Slotsforvaltarann. Christjana með óyndið, og eitt lítið eldhúsævintýri. Forstraad Lund.

____

Geologisk Excursion í Þorkelskóg; tveggja eykta bið. Kalkofnarnir; samanburður milli kalksins í „Therkelskow“ og Salthólmakalksins. Efunarmál hvurt Forchhammer segir satt.

____

Farum-kró. Rom og sykur, vatn og mjólk fyrir 10 skl; - vitlaus stelpa og bölvandi kerling, feitari en djöfullinn. Skógurinn prestsins, ágætlega fallegur og skemmtilegur.

  • Nóg er í Nörskógi,
  • nýtar gæsir,
  • prjónameyjar
  • og píknafjöld.
  •  
  • Barnið á skógarhorninu, sem hafði brotið ölglasið.
  •  
  • Sá ég í Hárskógi
  • hindir bíta
  • grasið væna
  • og gullinknappa;
  • þá voru blöðrur
  • á báðum fótum
  • og iljar illsárar
  • á aumum mér.

Þá kom ég til Baksvarðar og beiddist gistingar. Fegursta kvöld eitt fyrir sig, sem ég man til ég hafi lifað. Meðallagi vinnukonur, tevatn, brauð og brennivín. Jómfrúin og Øretvisten.

Undur og skelfing! Voldugur frúkostur og hestalæknir, manna mestur og kátastur, að skemmta mér. Hann minntist á Magnús Hákonarson, fullur af lotningu, og segir, að þá hafi sér verið mest skemmt á ævi sinni, þegar Magnús hafi verið að hvolfa úr herra Sörensen. „Han vendte ham, Gud straffe mig, saa pænt, að det var en Lyst at se paa“. Reikningurinn minn er 1 rd. og 5 skl., með tóbaki fyrir 6 skl. Guð sé oss næstur! og þó veit ég ekki, hvurt það er of mikið. Þetta er undarleg sjóferð, piltar góðir! Ég er nú á ferðinni til Salthólma.

____

  • Fjárkonu hjá –
  • fjárkonu hjá
  • ad wapa av,
  • ekki munu það allir fá;
  • illt er mér í stóru-tá,
  • ég ligg á legustóli,
  • hann er so rauður, hann er so rauður;
  • hvað það er bágt að vera dauður!
  • því sætt er að liggja Schäffer hjá
  • á sona mjúku bóli.

Þetta liggja hjá má ekki misskiljast, því það þýðir ekki nema að liggja eins og ég lá um árið, þegar ég stóð í panti, vesalingur.

Ég fór á stað úr Baksverði um dagmál, og skoðaði sandgrafirnar fyrir norðan bæinn. Þaðan fór ég til Friðriksdals og Lyngbæjar, þaðan til Jægersborgar og Ordrups, og drakk á leiðinni mjólk og rommblöndu fyrir 10 skl. Á þessari leið talaði ég við nokkra bændur um vegabæturnar. Þeir mega hafa á spöðunum og mæta með hesta og vagn, hvur auminginn 8-12 daga á ári, eftir því sem þeir sögðu mér.

„Ormurinn kemur, - ekki má!“ hér koma bölvaðir gestir, so ég verð að fara á fætur og hætta að skrifa og reykja, og nú hef ég ekkert að gera, nema ef það skyldi vera að skoða gatið, sem þjófarnir skáru á tjaldið hans herra Nielsens í nótt var. Þá var Ari of fjærri að gæta tjaldsins. Madama Schäffer hefur nálgazt hund, og lætur hann vera í sínu tjaldi, so enginn grandar því, eða neinu, sem hún á. – Hvur em eg, að ég líki mér við Madömu Schäffer? (Kaffi 10 skl.).

____

  • Þarf eg einn að arka
  • á utanfótar-jarka
  • yfir leið [og laut],
  • þó að blöðrur bláar
  • á belli minnar táar
  • kenni kvala [-þr]aut.
  •  
  • Laufin gr[ænu gróa]
  • og grösin [út um móa];
  • háar eikur [una sér],
  • og litlar [liljur dey]ja,
  • láta mig [einan] þreyja,
  • - ef að [hæli] eg hefði mér.
  •  
  • Bezt er [heim] að halda;
  • huldar gættir tjalda,
  • so ekkert úr þeim næst.
  • [Eg] kann ekki að stela
  • og illt er mér í bela
  • því ekkert í hann fæst.

Þetta er undarleg sjóferð, piltar góðir! Nú er klukkan . . . og eg er aftur kominn í gula húsið og lýk þar við ferðabókina, sem ég byrjaði.

Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b) með fyrirsögninni „ Sendibréf Jónasar Hallgrímssonar til sinna samferðamanna“.
Frumprentun í: Eimreiðin, III. ár, 1897, bls. 81-87, dr. Finnur Jónsson prófessor gaf út.
Heimild:
Jónas Hallgrímsson í óbundnu máli, bls. 36-43. (1946). Tómas Guðmundsson gaf út. Reykjavík: Helgafell.