Valstika

Skemmuþjófurinn

Skemmuþjófurinn

Séra Jón Brynjólfsson í Kálfholti skrifaði Páli sagnfræðingi Melsteð 10. VIII. 1882 bréf um Jónas Hallgrímsson og nokkrar gamanvísur frá skólaárum þeirra fylgdu með á sérstöku blaði, smáörk. Á eftir vísunum bætir hann við: „Ég vissi líka, að til var eftir hann skáldsaga, sem hét Skemmuþjófurinn. Hún byrjaði svona:

Stjarnan var rúmlega komin í hádegisstað, þegar herra administrator Álfur Snjólfsson á Nóatúnum fór á hátta. Guðrún, kona hans, var þá líka búin að rekja af og fór ofan að loka bæinn. Hún sér að stóra skemman á hlaðinu stendur opin.

Í bréfinu sjálfu skrifar séra Jón enn fremur: „Til uppfyllingar innlögðu blaði skal ég setja hér framhald af þræðinum í skáldsögunni“:

Guðrún kemur inn með öndina í hálsinum og segir: „Skemman stendur opin og ég held það sé þjófur í henni“. – „Það getur ekki skeð“, segir Álfur. – „Hvernig talarðu, maður; sem ég heyrði skurkið til hans“. – Álfur var kominn úr annarri skálminni og stökk upp og hleypur út, og dregur buxurnar á eftir sér, en flækist í þeim og dettur á arinhellunni; brýzt samt í ofurhuga út að skemmudyrunum og kallar inn og spyr: „Er hér nokkur?“ – Og svarað er: „Hér er enginn“. – „Ég vissi það gat enginn verið“, segir Álfur og læsir skemmunni; staulast síðan draghaltur inn í bæinn og sezt á rúmið sitt. – Þá segir Guðrún: „Var nokkur í skemmunni?“ – Álfur svarar: „Þar sagðist enginn vera“. – „Ertu vitlaus, maður?“ segir Guðrún; „hver gat sagt það, nema þjófurinn?“ – Álfur sansar sig, stekkur út aftur og hittir þá svo á, að þjófurinn er, með peningakistil í fanginu, að troðast út um skemmudyrnar. Álfur ræðst á hann og rekur hann undir. Í þessu bili hefur frá tunglinu og sér Magnús (þjófurinn) í augu Álfi og æpir upp yfir sig: „Hvaða bölvuð augu!“ – Álfur kreistir þá að kverkum hans og segir: „Alls kosti á ég við þig, en ligg nú hérna kyrr á meðan ég sæki ólarreipi inn í eldhúsið til að binda þig með“. – Hann fer og kemst nú varla fyrir helti, því blástur hafði hlaupið í hnéð. Þegar hann kemur út aftur, er þjófurinn allur á bak og burt, og peningakistillinn með. – Svo var gerð þjófaleit, þýfið hittist, maðurinn meðgekk, er dæmdur til hýðingar og sgr. Álfur leggur sjálfur á hýðinguna.

„Svona hér um bil var gangurinn í sögunni“, bætir séra Jón við.

Heimild:
Jónas Hallgrímsson í óbundnu máli, bls. 45-46. (1946). Tómas Guðmundsson gaf út. Reykjavík: Helgafell.