Valstika

Sagan af djöflinum

Sagan af djöflinum

Í gærkvöldi var ég staddur á Þingvelli eins og fyrir 4um árum; sólin rann undir vesturbarm Almannagjár, fögur og táhrein og logandi, og þótti mér vera eins og heiður Forn-Grikkja eður Sléttumanna hvyrfi skyndilega af jörðunni. Mér varð þá reikað á Lögberg; ærnar prestsins voru þar allar enn og bældu sig – það er ekki skröksaga – ég nennti ekki að tala á þessu sauðaþingi og hálflangaði mig þó til þess ef vera mætti ærnar skildu mig. Þá stóð djöfullinn hinum megin Flosagjár; hann hóf upp mikið bjarg og varpaði því í hyldýpið, lagði svo við hlustirnar að heyra bjargið sökkva.

„Dýpra og dýpra,“ sagði andskotinn, „það kemur ekki upp aftur að eilífu.“

Í brekkunni fyrir vestan stóð múgur manns, þeir höfðu á sér klafa eins og nautgripir og voru tjóðraðir við steina – annars hefðu þeir stolist á burt og strokið af Þingvelli. Þá gekk djöfullinn að þeim þar sem þeir teygðu klafana og lauk upp höfuðskeljum mannanna, en þeir fundu það ekki. Hann tók þá hnefafylli úr hvurju höfði og hugði að.

„Eintómar kvarnir,“ sagði andsk., „og ekki nema tvær í þorskkindinni.“

Mér varð svo hverft við að sjá hinn forna óvin mannanna furða sig á ofurmegni heimskunnar að ég sneri mér undan og fór að tína mosa af hraunsteinunum – hann Salomon Drejer grasafræðingur hefir beðið mig um þennan mosa.

Úr bréfi til Bjarna Thorarensens og er uppkast að bréfinu varðveitt á Landsbókasafni (ÍB 13 fol).
Heimild:
Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson (ritstjórar). (1989). Ritverk Jónasar Hallgrímssonar II. bindi: Bréf og dagbækur, bls. 73-74. Reykjavík: Svart á hvítu.